Í minningu pabba | Hljóðfangarinn

Hljóðfangarinn

Hljóðfangarinn haus 2

Í minningu pabba

17. október 2011 · 2 ummæli

17_10_63rgb_web

Faðir minn, Bergur Jónsson (f. 16.4.1934 – d. 28.9.2011), hefur líklega haft meiri áhrif á líf mitt en í fljótu bragði mætti halda. Hann kveikti áhuga minn á ýmsu s.s. skátum, hjólreiðum, ferðalögum, ljósmyndun og mjög mörgu öðru enda stundaði hann félagslíf á mörgum sviðum.
Sem rafmagsverkræðingur hafði hann að hluta líka áhrif á að ég lærði rafvirkjun, þó svo hann hafi eflaust ætlast til að ég færi í verkfræði.
Bestu minningar mínar um hann voru líklega árin 1968-1980 þegar ég fylgdi honum svo til hvert fótmál á sumrin um hálendi Íslands í tengslum við virkjanir og virkjanaáform. Þessi ár vann pabbi hjá Landsvirkjun sem verkfræðingur og síðar sem deildarverkfræðingur. Hann var því nokkuð fróður um virkjanir og orkuframleiðslu af ýmsu tagi auk þess að þekkja ýmsa afkima á hálendinu.
Sumrin á hálendinu höfðu mjög djúpstæð áhrif á mig, svo mjög að í dag tel ég ÓSPILLT víðerni hálendisins stórkotlegustu auðlind sem við Íslendingar eigum. Þessi tími með pabba hefur því mótað skoðanir mínar og líf öðru fremur en annað í mínu lífi.
Veturinn 1977-1978 var ég í Skálholtsskóla. Í hverjum mánuði komu ýmsir fyrirlesarar í skólann s.s. fulltrúar allra stjórmálaflokka og aðrir sem höfðu eitthvað fræðandi fram að færa. Ég fékk föður minn til að mæta í skólann og halda fyrirlestur um rafmagn og rafmagnsframleiðslu sem hann og gerði.
Hljóðritið sem hér fylgir var tekið upp við það tilefni. Set ég það nú á vefinn í minningu um föður minn sem ég því miður fæ ekki lengur að deila lífinu með.
Í þessu hljóðriti heyrist einnig í mönnum eins og Heimi Steinssyni rektor, Arnþóri Karlssyni bónda og kennara og Þorsteini Friðjóni Þorsteinssyni nema og miklum heimspekingi en þeir eru nú allir látnir. Einnig heyrist í Stefáni Erni Hjaltalín nema, sem nú býr í Bandaríkjunum.
Eitt það síðasta sem við feðgarnir gerðum saman, tveimur vikum fyrir dauða hans, var að fara á Google Maps og Google Earth til að leita að og skoða þá staði þar sem við áttum heima fyrstu æviár mín í Þýskalandi 1961 til 1966. Þau ár vann pabbi hjá Siemens-Schuckertwerke AG í Erlangen. Eftir flugið og heimsóknir í netheimum skrifaði hann samvikusamlega fyrir mig á hvaða sjúkrahúsi ég fæddist og heimilisföng þeirra þriggja staða þar sem ég hafði búið með foreldrum minum á þessum árum. Eitthvað sem ég hafði ætlað að fá hann til að gera í mörg ár.
Meðfylgjandi mynd var tekin í Erlangen í Þýskalandi 17. október 1963, á tveggja ára afmæli mínu, þar sem ég ligg á baki pabba sem greinilega var eitthvað að sýsla við Paragon myndavélina sína.

Sjá og heyra meira á: www.fieldrecording.net
Sækja mp3 skrá #1  Sækja mp3 skrá #2

Flokkun: Óflokkað · Hljóðblog · Mannlíf

2 ummæli fram að þessu ↓